Út af Kumbaravogi – inn á, eitthvað …

Nú berast þau tíðindi að loka eigi dvalar- og hjúkrunarheimilinu á Kumbaravogi. Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort sú lokun sé réttmæt, sá sem hér heldur um penna hefur ekki forsendur til þess að meta það. Hann veit hinsvegar – vegna þess að hann hefur vísiterað staðinn nokkrum sinnum, í það minnsta – að íbúar og þeir sem þar hafa þurft að dveljast skamma hríð, virðast ánægðir á staðnum.

Hitt er forvitnilegra og þarfnast umræðu, hvers vegna séu nú skyndilega til dvalar- og hjúkrunarrými á þessu svæði, hér í syðsta hluta Árnessýslu, til þess að hýsa þá sem áður bjuggu á Kumbaravogi. Þau pláss hafa nefnilega ekki legið á lausu hingað til. Eitt og eitt slíkt pláss hefur þó reyndar verið til – en þau hafa legið í dvala, ef svo má segja. Auð og tóm rúm, herbergi hér og þar – en ekki verið aðgengileg öldnu og/eða sjúku fólki vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki tímt að hafa þau pláss opin. Enda veit hið opinbera, ævinlega, hvar best er að spara.

Þeir sem bera ábyrgð á þessum málum; bera ábyrgð á því að fólk hafi húsaskjól og mannsæmandi aðbúnað, draga nú allt í einu upp úr sínum kanínuhatti – að eigin sögn: marga búsetukosti. Þeir fylla hin auðu rúm og virðast halda að við það tæmist biðlistar og þörf annarra en þeirra sem nú eru á Kumbaravogi fjari út; telja nánst að öldrun sé fyrir bí hér á svæðinu. Eða hvað?

Hvar eru hin auðu rúm? Eitt eða tvö eru á Eyrarbakka, eitthvað aðeins meira á Selfossi. En það dugar hvergi. Hyggjast þeir sem um véla flytja fólk frá Stokkseyri austur á Kirkjubæjarklaustur? Svo dæmi sé tekið. Eða í önnur héruð sem liggja jafnvel fjær?

Þeir sem loka og hafa til þess vald, hafa líka annað vald sem þeim ber að nota jafn skilyrðislaust. Það vald liggur í því að opna. Auðvitað á það ekki að geta gerst að yfirvald loki heimilum fólks án þess að opna önnur betri þá þegar – ekki á næsta ári eða eftir tvö, eða þrjú ár.

Það stoðar lítt að vísa til þess að „eitthvað sé í byggingu …“ – eða að lóð „hafi verið tryggð undir …“ – sá sem er 85 ára í dag, og frekar lasburða; hefur ekkert gagn af því að „á teikniborðinu sé – fáist fjármagn …“ Sá hinn sami hyggst jafnvel drepast á útmánuðum 2018 og ætti auðvitað að fá að mæta skapara sínum í þeirri sveit sem hann helst kýs og á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af hreppaflutningum, í stíl fyrri alda, svona rétt undir síðustu kirkjuferðina.

Það er í raun hrein lögleysa að leysa upp heimli fólks og setja það „eitthvað annað“ rétt svona eins og þegar maður tekur til í geymslu og færir sumardekkin út í bílskúr, eða gömlu kommóðuna hennar langömmu fram í forstofu – eða ákveður loks að henda gamla kolagrillinu sem hefur verið fyrir í níu ár. Þetta virkar ekki svoleiðs – eða, á ekki að virka þannig. En, því miður virðist umræðan – í það minnsta orðræðan – vera þannig að hér sé verið að færa aflóga dót úr einum stað í annan.

Dvalar- og hjúkrunarheimilið að Kumbaravogi hýsir fólk en ekki gömul reiðhjól af gerðinni Eska Velamos. Því þarf að finna gott heimili, nærri – ekki geymslu, einhverstaðar.

Guðmundur S. Brynjólfsson skrifar

Heimild: Hringbraut.is

Opnunartími Skálans á Stokkseyri yfir jól og áramót.

images

Jólahátíðaropnun.

 

Þorláksmessa    09:00 – 22:00.

Aðfangadagur  10:00 – 14:00.

Jóladagur  lokað.

Annar í jólum  10:00 – 22:00.

flugeldar2

 

  Áramótaopnun.

 

Gamlársdagur 10:00-16:00

Nýársdagur lokað.

 

Starfsfólk Skálans á Stokkseyri óskar viðskiptavinum sínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

 

 

 

Jólaball Kvenfélags Stokkseyrar verður haldið í íþróttahúsinu á Stokkseyri 26.des kl 13:00

jólaball 14 118Hið árlega jólaball Kvenfélags Stokkseyrar verður haldið í íþróttahúsinu á Stokkseyri 26.des kl 13. Boðið verður upp á vöfflur og heitt súkkulaði. Jón Bjarnason kemur og hristir upp í mannskapnum. Heyrst hefur að jólasveinarnir hafi farið í flensusprautu svo að þeir komist örugglega til byggða. Enginn aðgangseyrir. Hlökkum til að sjá ykkur. Kvenfélag Stokkseyrar.

Hin árlega skötuveisla ungmennafélags Stokkseyrar verður haldin í íþróttahúsinu á Stokkseyri Föstudaginn. 23.Desember

IMG_0484Hin árlega skötuveisla ungmennafélags Stokkseyrar verður haldin í íþróttahúsinu á Stokkseyri Föstudaginn. 23.Desember.

Húsið opnar kl.11:00 en borðhald hefst kl.11:30.

Boðið verður upp á sterka skötu, daufa skötu og saltfisk með tilheyrandi meðlæti.

Verð á mann. 2500 kr. 12 ára og yngri 1000 kr.

Gos selt á staðnum.

Lifandi tónlist og almenn jólagleði.

Minnum à mikilvægi þessarar söfnunar fyrir félagið og um leið hvetjum við alla til að halda í góðar hefðir sem skötu át á Þorláksmessu svo sannarlega er.