Knattspyrnulið Stokkseyrar 2023


Knattspyrnulið bæjarins hóf leik í A-riðli 5. deildar nú í upphafi sumars. Til stóð að liðið spilaði í nýrri utandeild á vegum KSÍ á þessu tímabili en þegar lið fóru eitt af öðru að draga sig úr keppni voru gerðar breytingar sem urðu til þess að við Stokkseyringar hnepptum sæti í 5. deild. Þórhallur Aron Másson er fyrirliði liðsins og einn fjögurra leikmanna sem búsettir eru á Stokkseyri. Aðrir leikmenn koma flestir frá svæðinu í kring, þ.e. Eyrarbakka, Selfossi, Hveragerði og Þorlákshöfn – þó einhverjir leggi leið sína alla leið úr höfuðborginni til að spila fyrir klúbbinn okkar. Það ætti þó að vera öllum ljóst sem mæta á völlinn að hver einasti leikmaður hefur hjarta sem slær fast í takt við Stokkseyrarhjartað – og menn leggja sig alla fram fyrir málstaðinn.

Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum milli ára, en liðið fékk t.a.m. til sín tvo spilandi þjálfara fyrir sumarið, þá Arilíus Óskarsson og Þorkel Þráinsson. Með komu þeirra hefur liðið yngst nokkuð upp og er klúbburinn m.a. í góðu samstarfi við 2. flokk knattspyrnudeildar Selfoss, þaðan sem ungir strákar hafa komið og leikið sína fyrstu meistaraflokksleiki undir merkjum Stokkseyrar. Nokkrir reynsluboltar leynast þó einnig í liðinu og má þar nefna Hjalta Jóhannesson, sem varð Íslands- og bikarmeistari með ÍBV tímabilið 97-98, og “Suðurlandsins eina von” Arilíus Marteinsson, sem afrekaði það að verða fyrsti einstaklingurinn til að skora í öllum deildum innan KSÍ í karlaflokki.

Hlynur Kárason, markvörður Stokkseyrar, verður seint sakaður um annað en að vera hraustur.

Aðspurður segir Þórhallur að markmiðið sé, nú eins og alltaf, fyrst og fremst að hafa gaman af þessu og skemmta í leiðinni þeim sem mæta á völlinn. Liðið vill spila skemmtilegan sóknarbolta, skora sem flest mörk og gleðja viðstadda. Þórhallur segir að nýjir leikmenn skynji fljótt einhverja sérstaka töfra við að spila á Stokkseyrarvelli, sem ku vera minnsti völlur þar sem spilaðir eru leikir í deildarkeppni KSÍ. Fólk flykkist jafnan á völlinn og er duglegt við að láta í sér heyra, sem er alltaf hvatning til leikmanna um að gefa af sér til baka.

En markmiðin eru þó fleiri, því hópurinn hefur sett sér að berjast fyrir því að komast upp um deild og spila í 4. deildinni að ári. Eftir nokkuð brösulegt gengi í upphafi sumars, þar sem fyrstu þrír leikirnir töpuðust, hefur liðinu tekist að snúa genginu við. Þegar þetta er ritað er mótið hálfnað og hefur liðið unnið 4 af síðustu 6 leikjum sínum, situr í 5. sæti deildarinnar og færist upp á við á töflunni.

Stokkseyri leikur í rauðum og hvítum treyjum. Fyrirmynd hönnunar var búningur stórliðsins Arsenal á Englandi, en stofnendur klúbbsins voru heitir Arsenal stuðningsmenn.

Stokkseyri er ástríðuklúbbur sem er rekinn í sjálfboðavinnu. Eins og gefur að skilja er allt annað en auðvelt að halda slíku starfi gangandi. Menn helga sig þessu verkefni yfir sumarmánuðina, og erfitt er að láta það ekki bitna á fjölskyldulífi og ferðaplönum. Starfið er einnig kostnaðarsamt og því er klúbburinn þakklátur fyrir að hafa trausta stuðningsaðila. Ef þú vilt sýna félaginu stuðning – og tryggja að áfram verði spilaður fótbolti á grasvellinum okkar – getur þú keypt miða í happdrætti sem liðið selur um þessar mundir, og er þeirra helsta fjáröflun. Fyrirtæki geta einnig keypt skilti á völlinn. Svo er mesti stuðningurinn að sjálfsögðu sýndur með því að mæta á völlinn og fagna með strákunum okkar, hvort sem það er með bílflautunni eða hrópum og köllum. Sérstaklega skemmtilegt er þegar krakkar í þorpinu mæta saman, sækja bolta fyrir liðið, fagna sigrum og spjalla við leikmenn eftir leiki.

Leikir sem eftir eru (heimaleikir feitletraðir):

Lau 8. júlíStokkseyri – Hörður
Mán 17. júlíRB – Stokkseyri
Þri 25. júlíStokkseyri – KB
Mán 31. júlíLéttir – Stokkseyri
Fös 11. ágústReynir H – Stokkseyri
Mán 14. ágústStokkseyri – Hafnir
Lau 26. ágústÁlafoss – Stokkseyri

Fylgjast má með stigatöflunni og sjá tölfræði leikmanna á síðum KSÍ:

https://www.ksi.is/mot/stakt-mot/?motnumer=46423


https://www.ksi.is/mot/stakt-mot/lid-i-moti/?motnumer=46423&lid=825&View=table