Krummi Björgvins með tónleika í Stokkseyrarkirkju


Dagskrá Haustgildis 2023 er farin að taka á sig mynd og verður margt áhugavert í boði. Á meðal viðburða eru áhugaverðir tónleikar í vinalegu kirkjunni okkar, Stokkseyrarkirkju, þar sem Krummi Björgvinsson mun flytja tónlist sína. Tónleikar Krumma verða á laugardagskvöldinu 2. sept kl. 20:00. Sérstök miðasala er inn á þann viðburð og fer fram á tix.is.

Krummi Björgvins hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi allt frá því hljómsveitin Mínus sigraði Músíktilraunir upp úr aldamótum og olli í kjölfarið talsverðu fjaðrafoki. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Krummi m.a. gert það gott með suðurríkjarokk sveitinni Esja og rafpopp dúettinum Legend.

Krummi hefur undanfarin misseri sent frá sér lög af komandi plötu, sem er einnig hans fyrsta sólóplata. Lögin hafa öll gert það gott á öldum ljósvakans, en lagið Stories to Tell hélt t.a.m. fyrsta sæti vinsældarlista Rásar 2 í heilar 5 vikur. Krummi lýsir tónlist sinni sem kántrýskotnu þjóðlagarokki, einlægu og með sálarríkum söng – þar sem sungið er um raunir og þrengingar lífsins.