„Saga Þuríðar formanns kveikti neistann“

Fyrir einstaka tilviljun byrjaði Margaret Willson, mannfræðingur og prófessor við Washington háskóla í Seattle, að rannsaka sjósókn íslenskra kvenna. Henni var boðið í heimsókn til Íslands árið 1999, sótti Stokkseyri heim og kom við í Þuríðarbúð, sem þá var í raun ekki annað en minnisvarðinn um Þuríði formann. Stórbrotin saga Þuríðar kveikti neistann og teningunum var kastað. Hún var sjálf alin upp í sjávarþorpi í Oregon þar sem hún vann sem háseti á mörgum bátum. Sjómennskan er henni sjálfri því í blóð borin.

Afurð rannsóknar hennar er bókin Survival on the Edge: Seawomen of Iceland, sem kom út hjá University of Washington Press, í Seattle, Bandaríkjunum, á síðasta ári og hefur vakið mikla athygli. Sjávarsafnið í Reykjavík setti til dæmis upp sýningu um verk hennar sem hefur staðið í tvö ár. Margaret er nú enn og aftur stödd á Stokkseyri í rannsóknarleyfi frá háskólanum.

„Þessi óvænta ferð á Stokkseyri gjörbreytti lífi mínu og ég hef myndað mjög sterk tengsl við þorpið síðan þá. Vonandi fæst bókin mín þýdd og gefin út á Íslandi, en það kemur í ljós á næstunni,“ segir Margaret en ritstjóri Suðra hitti þessa merku fræðakonu á Stokkseyri fyrir skömmu, ásamt Þórði Guðmundssyni sem er henni innan handar.
Hvað hefur komið þér á óvart við rannsókn á íslenskum sjókonum?

„Í fyrsta lagi hvað þær eru og hafa verið margar. Frá því að saga og minnisvarði Þuríðar formanns kveikti hugmyndina að verkinu var það ekki fyrr en tíu árum síðar að ég fékk styrk til þess að hefja rannsóknina formlega. Fyrir nítjándu öldina var það ekkert tiltökumál að konur væru á sjó, en þær voru þá um einn þriðji sjómanna. Það þurfti allar hendur á dekk, og konur voru ómissandi hluti vinnuaflsins. Það var ekki fyrr en líða tók á 19. öldina að kynjalínan varð skýrari og það þótti eingöngu við hæfi karlmanna að stunda sjóinn. Það má því segja að það viðhorf hafi orðið til í landi, því konur voru löngu orðnar fullgildir sjómenn.“
Hvað ertu að rannsaka núna?

„Áfram er ég hugfangin af Stokkseyri og sögu þorpsins. Viðvangið er sagan og nútíðin. Þáttur minninganna í því. Sagan er að mestu sögð með augum karlmanna og ég vil fá fram sjónarhorn kvenna í nútíð og fortíð. Hvað gerir samfélagið að því sem það er, hvaðan spretta jafn stórir kvenleiðtogar og Þuríður formaður og Margrét Frímannsdóttir, svo ég taki tvo skörunga fyrr og nú, báðar frá Stokkseyri sem eiga sér einstaka sögu. Hvaðan koma þessar stór merkilegu konur og hvað í umhverfi þeirra gerði þær að þessum miklu leiðtogum? Ég rannsaka einnig hvernig fólk kemst af við ójöfnuð og óréttlæti og einbeiti mér í því ljósi að sögu Stokkseyrar. Ég stefni að því að koma aftur í september, og þá mun ég hitta Margréti og heyra hennar sögu,“ segir Margaret.

Í bókinni rekur Margaret sögu íslenskra sjókvenna frá Þuríði formanni á Stokkseyri til Sigrúnar stýrimanns frá Djúpavogi og nokkurra enn yngri kvenna. Hún skrifar í fyrstu persónu og rekur í inngangi bókarinnar hvatann að því að hún fékk áhuga á efninu, hvernig var að hefja rannsókn á efni sem lítið hafði verið skoðað og aðferðir sínar við gagnaöflun. Í máli hennar kemur skýrt fram að þrátt fyrir að hafa gjarnan fengið þau svör að fáar konur hafi stundað sjó frá hinum eða þessu bæjarfélaginu þá hafi alla jafna allt annað komið á daginn og þær séu fjölmargar Íslensku konurnar sem sótt hafa sjóinn, þótt þær hafi ekki gert sjóskókn að ævistarfi sínu.

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku, segir í grein á Hugrás um bókina að í texta hennar takist Willson með athyglisverðum hætti að flétta saman ítarlega heimildavinnu og vitnisburð Íslenskra kvenna af eigin reynslu, ásamt tilvísunum í fjöldan allan af þjóðsagnakenndum frásögnum um sjósókn þeirra á ólíkum tímum.„Hún leitar víða fanga og nýtir sér jafnt varðveittar sjóferðabækur sem og stökur og kvæði, s.s. eftir Ólínu Andrésardóttur, frá 1924, þar sem segir: „þær saumuðu, spunnu, styrðu skeið, / þeim var kunnug láar leið / lögð yfir grunna svæðin breið“ (bls. 40), til að varpa ljósi á margbrotið lífshlaup kvenna um aldir.“

Strandahlaup á Stokkseyri

hlaup 010Strandahlaup Ungmennafélags Stokkseyrar verður haldið eftirtalda miðvikudaga í maí.

Miðvikudaginn 3, 10,17 og 24. Hlaupið hefst kl 20:00 og er startað við sjoppuna à Stokkseyri.

Hlaupa þarf 3 sinnum til að fá viðurkenningu og verðlaunapening. Sérstök verðlaun fyrir besta tímann í karla og kvenna flokk.

Allir hvattir til að taka þátt, hreyfa sig og hafa gaman.

Stjórnin.

 

Veiðipróf við Stokkseyri

 

Vefur1 (806)Í dag, laugardaginn 22. apríl, munu standa yfir veiðipróf á dælunum vestan við Stokkseyri.

Veiðipróf er hundakeppni þar sem prófaðir eru sækjandi veiðihundar. Allir hundar sem koma a svona mót eru mikið þjálfaðir og undir aga eigenda sinna. Þetta fer þannig fram að hundar eru látnir sækja dauða fugla (sem fengnir eru hjá meindýraeyði ). Það er lika gefinn smá hvellur með startbyssu.

Svona próf eru haldin 11-12 sinnum á ári út  um allt land og eru á vegum deildar innan HRFÍ.