Fimm ára gömul verksmiðja rifin?

Kjötmjölsverksmiðjan í Hraungerðishreppi hætti í gær móttöku á sláturúrgangi og verður slökkt á henni í dag þegar úrvinnslu er lokið. Að sögn framkvæmdastjóra verður verksmiðjan seld til niðurrifs á næstu mánuðum, en verksmiðjan tók til starfa fyrir aðeins fimm árum, eða árið 2000.

Rekstrargrundvöllur verksmiðjunnar brast endanlega þegar sala á áburði, sem var framleiddur úr slátur- og kjötúrgangi, var bönnuð eftir að riða kom upp í Ölfusi fyrir tveimur árum.

heimild: www. mbl.is

Menning og mannlíf við ströndina

Líkt og undanfarin ár standa Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Sagnfræðingafélag Íslands fyrir ráðstefnu á vormánuðum utan höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við heimamenn. Markmið slíkra ráðstefna er m.a. að styrkja staðbundnar rannsóknir og miðlun á sviði sagnfræði, þjóðfræði og annara hug- og félagsvísinda, annars vegar með því að vekja áhuga fræðimanna í Reykjavík á einstökum svæðum og hins vegar með því að efla áhuga heimamanna á eigin sögu og menningu. Að þessu sinni urðu Stokkseyri og Eyrarbakki fyrir valinu og eru strandbyggðir suðurlands og lágsveitir Árnessýslu þar í brennidepli. Ráðstefnan verður haldin laugardaginn 22. maí og fer að mestu fram í húsakynnum Draugasetursins á Stokkseyri. Dagskrá hefst kl. 9:30 með opnunarfyrirlestri Valdimars Hafstein þjóðfræðings sem reifar hugmyndafræði menningararfs í alþjóðlegu samhengi. Í kjölfarið fylgja 10 fyrirlestrar sem allir tengjast sögu og menningu svæðisins á einhvern hátt og verður þar komið víða við. Að fyrirlestum loknum liggur leiðin á Eyrarbakka þar sem forstöðumaður Byggðasafns Árnesinga tekur á móti ráðstefnugestum í Húsinu og kynnir safnið og sögu staðarins. Dagskránni lýkur að venju með hátíðarkvöldverði í húsakynnum Draugasetursins þar sem veitingamenn Rauða hússins á Eyrarbakka munu bera fram saltfiskveislu þar sem lögð er áhersla á fjölbreytilega framsetningu. Kvöldmaturinn kostar 2500 krónur en í því er einnig innifalin léttur hádegisverður. Bjarni Harðarson blaðamaður og þjóðfræðinemi mun flytja tölu undir borðum. Að kvöldverði loknum gefst gestum kostur á að skoða sýningu Draugasetursins og kostar það 1000 krónur fyrir ráðastefnugesti. Boðið verður upp á rútuferð á ráðstefnuna frá Reykjavík og kostar hún 1000 kr. Lagt verður af stað frá Nýja Garði stundvíslega kl. 8:30 og áætluð heimkoma að loknum hátíðarkvöldverði rétt upp úr miðnætti. Aðgangur að ráðstefnunni sjálfri er ókeypis og öllum heimill en þeir sem hyggjast taka þátt í hátíðarkvöldverði eru beðnir um að skrá sig hjá Davíð Ólafssyni (8456573/davidol@akademia.is) eða Guðna Th. Jóhannessyni (gudnith@hi.is).

DAGSKRÁ:

8:30 Lagt af stað frá Nýja Garði

9:30-10:10 Valdimar Tr. Hafstein. Menningararfur, margbreytileiki og alþjóðapólitík. Um arfð, erfðir og UNESCO.

10:10-10:40 Helgi Ívarsson. Stokkseyri og saga hennar.

10:40-11:00 Kaffihlé.

11:00-11:30 Árni Daníel Júlíusson. „Skóli fyrir ráðlitla fátæklinga“. Hugmyndafræði stofnenda barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.

11:30-12:00 Páll Lýðsson. Sagnfræðingar og fræðimenn við ströndina.

12:00-12:30 Davíð Ólafsson. Skrifaðar bækur Jóns í Simbakoti.

12:30-13:20 Kaffihlé.

13:20-13:50 Ingibjörg Ólafsdóttir. Niðursetningar og þurfamenn í lágsveitum Árnessýslu á 19. öld.

13:50-14:20 Helgi Skúli Kjartansson. Vetrarvertíðin, orsök og afleiðingar.

14:20-14:50 Svavar Sigmundsson. Staðanöfnin í Árnessýslu.

14:50-15:10 Kaffihlé.

15:10-15:40 Erlingur Brynjólfsson. Flóaáveitan og saga hennar. Aðstæður, aðdragandi og árangur.

15:40-16:10 Sigríður H. Jörundsdóttir. Sauðaþjófar eða svangir menn? Sakamenn í Árnessýslu 1755-1759.

16:10-16:40 Arna Björg Bjarnadóttir. Samfélag við Sog.

17:00-18:30 Móttaka í Byggðasafni Árnesinga.

19:00-23:00 Hátíðarkvöldverður.

20:30-21:30 Draugasýningin skoðuð.

23:30 Rúta til Reykjavíkur.

heimild; www.akademia.is

Fréttir af gömlum Stokkseyringum

Hjónin Einar Steindórsson og Þóra Egilsdóttir stunda fisksölu á Freyjugötu 1 í Reykjavík. Þar hafa þau staðið vaktina í þrettán og hálft ár og eru þekkt fyrir þægilega og persónulega þjónustu. „Þetta er dálítið eins og í þorpi,“ segir Þóra brosandi. „Fastakúnnarnir verða kunningjar manns og maður fylgist með heilsufari og öðru í lífi þeirra.“ Sjálf er hún Eyrbekkingur að uppruna og þekkir þorpslíf af eigin raun. Kveðst allt að því fædd í slorinu og kunna vel við stemninguna kringum fiskinn. Einar er líka ánægður með starfið enda þótt vinnudagurinn sé oft langur. „Maður er sjálfs síns herra og þetta er ágætt í alla staði,“ segir hann. „Ég var sendiferðabílstjóri áður en ég byrjaði í þessu. Annars var ég á Stokkseyri fyrstu 40 æviárin og þá lengst af á sjó.“ En skyldi fiskbúðabransinn hafa breyst frá því að þau byrjuðu árið 1992?

„Það eru engar stórbreytingar nema hvað áherslan hefur verið að færast meira yfir á tilbúna rétti sem fólk getur gripið með sér og þarf lítið að hafa fyrir, ofnrétti, bollur, plokkfisk og fisk í raspi. Þannig eru kröfur tímans og maður verður að fylgja þeim,“ segir Einar og þakkar konu sinni vinsældir tilbúnu réttanna þeirra. „Við höfum þetta bara eins og það sé heimatilbúið og eins og maður lærði af mömmu og tengdamömmu. Þannig vill fólk hafa það,“ segir Þóra. Einar kaupir fiskinn á mörkuðunum í gegnum tölvuna, mest á Faxamarkaði. „Ef ég kaupi fisk til dæmis austan af Hornafirði þá næ ég bara í hann niður á Faxamarkað morguninn eftir. Bílarnir eru á ferðinni allan sólarhringinn,“ segir hann.

Meðan Einar sér um að kaupa fiskinn sér Þóra um að selja hann og í lokin er hún spurð hvort þetta sé ekki kuldalegt starf. „Nei,“ svarar hún og hlær. „Oftast er ég berfætt í stígvélunum, þannig líður mér best. Svo er ég alltaf berhent. Þó að ég sé á kafi í ísnum þá er mér aldrei kalt.“

heimild: www.visir.is

Rauðmagavertíð hafin á Stokkseyri

Hefðbundin rauðmagavertíð á Stokkseyri er nýhafin. Tveir aðilar stunda þessar veiðar og er annar þeirra Önfirðingurinn Þorvaldur Hafberg frá Flateyri.

Þorvaldur hefur búið á Stokkseyri ásamt konu sinni Nonný Björnsdóttur frá 21. júní 2002 og líkar þeim búsetan þar mjög vel. Þorvaldur er kominn á eftirlaun og hefur tekið upp starfshætti „útvegsbænda“ að fornum sið. Hann stundar rauðmagaveiðar ásamt hundi sínum Snúllu, er einnig með nokkra hesta og stundar útreiðar af kappi.

Starfsreynsla Þorvaldar nýtist vel á þessum vettvangi því hann vann hjá Fasteignamati ríkisins í 16 ár, útgerðarstjóri hjá Ísbirninum í Reykjavík 1973 – 1986, gerði út eigin 45 tonna bát, Kristján frá Keflavík í nokkur ár, lærði og starfaði við rafvirkjun en byrjaði sem bóndi í Borgarfirði. Þau Nonný og Þorvaldur taka virkan þátt í mannlífinu við Suðurströndina og er Þorvaldur virkur félagi í Útvegsbændadeild Hrútavinafélagsins Örvars hvar fjölmargir kraftmiklir Önfirðingar standa fyrir ýmsu félagsstarfi sem vekur athygli og aðdáun margra.

Þá hefur Þorvaldur tekið sæti í Öldungaráði Stokkseyrar sem hittist á hverjum sunnudagsmorgni í Shellskálanum þar sem farið er yfir mál allt frá fortíð til nútíðar og gerðar framtíðarspár í mörgum málum.

heimild: Björn Ingi Bjarnason www.flateyri.is