Atvinnuleysi í sögulegu lágmarki Sunnanlands

Atvinnuleysi hefur aldrei verið minna á Suðurlandi. Sem stendur eru 208 á atvinnuleysisskrá, þar af aðeins 48 karlmenn. Hlutfallslegt atvinnuleysi á Suðurlandi er því eitt og hálft prósent og fer minnkandi, var eitt komma sjö prósent í mars. Þegar minnst var fyrr í mánuðinum fór tala atvinnulausra Sunnlendinga niður fyrir 200.

Mikið framboð er af störfum sem henta karlmönnum, til að mynda í byggingavinnu og önnur verkastörf. Sigurður Jónsson forstöðumaður svæðisvinnumiðlunar Suðurlands segir að helst vanti hentuga dagvinnu fyrir konur, auk þess sem nokkuð sé um að vinnufærni sé takmörkuð hjá fólki, ýmis vegna bakveikinda, gigtar eða ámóta kvilla. Skortur sé á léttari störfum sem henti þeim hópi betur.

Að öðru leyti virðist bjart framundan í atvinnumálum sunnanlands.

heimild: www.ruv.is

Veiði að glæðast

Veiði hefur verið góð fyrir sunnan land eftir hrigningarstoppið. Heildarafli sem landað var í Þorlákshöfn í síðustu viku var um 435 tonn, þar af um 32 tonn af humri.

Trollbátar hafa verið að landa ýsu, mokveiði hefur verið á línu og talsvert hefur borið á stórþorski. Þá sagði einn viðmælandi svæðisútvarpsins að þrátt fyrir tregðu hjá fræðingunum væri hellingur af smáfiski í netunum.

Helstu aflatölur úr Þorlákshöfn eru annars þessar:
Af dragnótabátum landaði Hásteinn mestu, tæpum tuttugu og átta tonnum. Togbáturinn Þinganes landaði um 38 tonnum. Af netabátum skilaði Íslandsbersi mestu á land, eða 36 tonnum, í þremur ferðum.

heimild: ww.ruv.is

Hjólað í vinnuna 2.-13. maí

Bæjarráð hvetur íbúa sveitarfélagsins að taka þátt í verkefninu ,,hjólað í vinnuna” 2.-13. maí.

Hjólað í vinnuna um allt land 2.-13. maí

Dagana 2.-13. maí n.k. mun fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, Ísland á iði, standa fyrir fyrirtækjakeppninni ,,Hjólað í vinnuna“.

Meginmarkmið ,,Hjólað í vinnuna“ er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, hagkvæmum og umhverfisvænum samgöngumáta. Keppnin er byggð í kringum heimasíðu verkefnisins sem vistuð er á isispor.is Keppt er í 6 fyrirtækjaflokkum um flesta daga og flesta km, hlutfallslega miðað við fjölda starfsmanna í fyrirtækjum. Þannig er aðalatriðið að fá sem flesta með, sem oftast.

Allir þeir sem nýta eigin orku til að koma sér til vinnu s.s. hjóla eða ganga geta tekið þátt. Þar sem það á við eru þeir sem taka strætó einnig gjaldgengir þátttakendur en þá telur sú vegalengd sem gengin er til og frá stoppistöð.

Á síðasta ári áttu 162 fyrirtæki og stofnanir frá 29 sveitarfélögum, 289 lið í keppninni. Þátttakendur voru 2510, þátttökudagarnir 12146 (4.84. að meðaltali) og alls voru farnir hvorki meira né minna en 93.557 km (37,27 km að meðaltali) eða 70 hringir í kringum landið. Með samstilltu átaki er að sjálfsögðu stefnan að gera enn betur í ár.

Vinnustaðir um allt land eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla heilbrigði og samheldni starfsmanna í skemmtilegum leik.
´
heimild: www.árborg.is

Guðni Ágústson hrútavinur

Guðni Ágústsson er í Hrútavinafélaginu. Þessa staðreynd má finna á vef framsóknarflokksins þar sem gert er grein fyrir fjárhag, eignum, hagsmunum og tengslum þingmanna flokksins í samræmi við reglur sem þingflokkurinn hefur sett sér og kynntar voru í dag.

Þótt Guðni sé einnig í Þristavinafélaginu, er hann greinilega ekki eins duglegur í félagslífinu og flokkssystir hans Siv Tulin Friðleifsdóttir, sem alls gerir grein fyrir þáttöku sinni í nítján félögum og samtökum, stórum og smáum, til að mynda Norðmannafélaginu á Íslandi og Badmintonklúbbnum Lurkunum, svo eitthvað sé nefnt.

heimild: www.ruv.is