Fimm ára afmælishátið Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi

Föstudaginn 13. maí n.k. fagna Hrútavinir og gestir þeirra fimm ára afmæli félagsins í Lista- og menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri kl. 21:00 á sérstakri vorhátíð:

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og heiðursforseti Hrútavinafélagsins, flytur hátíðarávarp og fer yfir hlutverk og árangur félagsins á liðnum árum. Guðmundur Búason, síðasti framkvæmdastjóri Kaupfélags Árnesinga og stjórn félagsins, munu afhenda Hrútavinafélaginu uppstoppaðan hrút sem var um árabil á skrifstofu Kaupfélags Árnesinga á Selfossi. Jón Hákon Magnússon, framkvæmdastjóri KOM, Kynning og markaður, mun gera grein fyrir útrás Hrútavinafélagsins og tengsla félagsins við alþjóðasamtök og hnattvæðingu.

Félagar frá “Hinu konunglega danska Hrútavinafélagi” verða sérstakir gestir á hátíðinni og mun hljómsveit félagsins og Siggi Björns koma fram. Margir muna heimsókn hljómsveitarinnar árið 2001. Boðið upp á brenndar möndlur að hætti Dana á Strikinu.

Gifsarnir, gítarsveit Tónlistarskóla Árnesinga, flytur gullaldarpopp með sérstakri áherslu á The Beatles og The Kinks. Ólafur Helgi Kjartansson, lögsögumaður Hrútavinafélagsins, fylgir þeirra dagskrá úr hlaði. Fjöldasöngur og fleira að hætti Hrútavina.

Elfar Guðni Þórðarson, listmálari á Stokkseyri og Hrútavinur, verður með forkynningu á málverkasýningu sem hann opnar svo formlega laugardaginn 14. maí kl. 14:00.

Allir velkomnir og er aðgangseyrir aðeins kr. 1.000. Veitingar seldar á hátíðinni. Búist er við mikilli þátttöku og eru teknar pantanir hjá eftirtöldum: Siggeir s: 863-1182 / Björn Ingi s: 897-0542.

Snjókoma á Stokkseyri

Eftir annars ágætt vorveður undanfarið hefur harðnað heldur á dalnum eða satt best að segja „á ströndinni“ en örlítil snjókoma, haglél og talsverður vindspenningur hafa barið á Stokkseyringum þennan annan dag maí mánaðar.

Lík Brasilíumannsins fundið

Lík tæplega þrítugs Brasilíumanns sem hvarf eftir að hann fór fótgangandi frá heimili sínu að Stokkseyri annan apríl er fundið.

Um klukkan 17 í gær fékk lögregla á Selfossi tilkynningu um að maður sæist liggja á skeri út frá Stokkseyri.

Við athugun lögreglumanna kom í ljós að það var lík Ricardo Correia Dantas sem leitað hefur verið. Dánarorsök er enn ókunn en lögregla fer með rannsókn málsins.