Fréttir af gömlum Stokkseyringum

Hjónin Einar Steindórsson og Þóra Egilsdóttir stunda fisksölu á Freyjugötu 1 í Reykjavík. Þar hafa þau staðið vaktina í þrettán og hálft ár og eru þekkt fyrir þægilega og persónulega þjónustu. „Þetta er dálítið eins og í þorpi,“ segir Þóra brosandi. „Fastakúnnarnir verða kunningjar manns og maður fylgist með heilsufari og öðru í lífi þeirra.“ Sjálf er hún Eyrbekkingur að uppruna og þekkir þorpslíf af eigin raun. Kveðst allt að því fædd í slorinu og kunna vel við stemninguna kringum fiskinn. Einar er líka ánægður með starfið enda þótt vinnudagurinn sé oft langur. „Maður er sjálfs síns herra og þetta er ágætt í alla staði,“ segir hann. „Ég var sendiferðabílstjóri áður en ég byrjaði í þessu. Annars var ég á Stokkseyri fyrstu 40 æviárin og þá lengst af á sjó.“ En skyldi fiskbúðabransinn hafa breyst frá því að þau byrjuðu árið 1992?

„Það eru engar stórbreytingar nema hvað áherslan hefur verið að færast meira yfir á tilbúna rétti sem fólk getur gripið með sér og þarf lítið að hafa fyrir, ofnrétti, bollur, plokkfisk og fisk í raspi. Þannig eru kröfur tímans og maður verður að fylgja þeim,“ segir Einar og þakkar konu sinni vinsældir tilbúnu réttanna þeirra. „Við höfum þetta bara eins og það sé heimatilbúið og eins og maður lærði af mömmu og tengdamömmu. Þannig vill fólk hafa það,“ segir Þóra. Einar kaupir fiskinn á mörkuðunum í gegnum tölvuna, mest á Faxamarkaði. „Ef ég kaupi fisk til dæmis austan af Hornafirði þá næ ég bara í hann niður á Faxamarkað morguninn eftir. Bílarnir eru á ferðinni allan sólarhringinn,“ segir hann.

Meðan Einar sér um að kaupa fiskinn sér Þóra um að selja hann og í lokin er hún spurð hvort þetta sé ekki kuldalegt starf. „Nei,“ svarar hún og hlær. „Oftast er ég berfætt í stígvélunum, þannig líður mér best. Svo er ég alltaf berhent. Þó að ég sé á kafi í ísnum þá er mér aldrei kalt.“

heimild: www.visir.is

Rauðmagavertíð hafin á Stokkseyri

Hefðbundin rauðmagavertíð á Stokkseyri er nýhafin. Tveir aðilar stunda þessar veiðar og er annar þeirra Önfirðingurinn Þorvaldur Hafberg frá Flateyri.

Þorvaldur hefur búið á Stokkseyri ásamt konu sinni Nonný Björnsdóttur frá 21. júní 2002 og líkar þeim búsetan þar mjög vel. Þorvaldur er kominn á eftirlaun og hefur tekið upp starfshætti „útvegsbænda“ að fornum sið. Hann stundar rauðmagaveiðar ásamt hundi sínum Snúllu, er einnig með nokkra hesta og stundar útreiðar af kappi.

Starfsreynsla Þorvaldar nýtist vel á þessum vettvangi því hann vann hjá Fasteignamati ríkisins í 16 ár, útgerðarstjóri hjá Ísbirninum í Reykjavík 1973 – 1986, gerði út eigin 45 tonna bát, Kristján frá Keflavík í nokkur ár, lærði og starfaði við rafvirkjun en byrjaði sem bóndi í Borgarfirði. Þau Nonný og Þorvaldur taka virkan þátt í mannlífinu við Suðurströndina og er Þorvaldur virkur félagi í Útvegsbændadeild Hrútavinafélagsins Örvars hvar fjölmargir kraftmiklir Önfirðingar standa fyrir ýmsu félagsstarfi sem vekur athygli og aðdáun margra.

Þá hefur Þorvaldur tekið sæti í Öldungaráði Stokkseyrar sem hittist á hverjum sunnudagsmorgni í Shellskálanum þar sem farið er yfir mál allt frá fortíð til nútíðar og gerðar framtíðarspár í mörgum málum.

heimild: Björn Ingi Bjarnason www.flateyri.is

Farfuglarnir

Lóan er mætt til starfa

Lóan er sprellfjörug og spræk og syngur fullum hálsi á Stokkseyri, að sögn Ólafar Jónsdóttur íbúa í bænum. Ólöf rakst á lóuna um helgina þegar hún var á göngu nálægt bænum. Hún heyrði fyrst í henni og trúði vart eigin eyrum.

„Það breytist alltaf eitthvað inní manni þegar maður sér lóuna. Það kemur sumar í mann og maður fer að spá í tjaldvagninn og útilegurnar og það verður raunverulegra að sumarið sé að koma. Þetta er óneitanlega sumarboðinn.“

Heimild: visir.is

Fréttir úr Töfragarðinum á Stokkseyri

Í gær kom risa stór kastali til Stokkseyrar, verður hann settur upp í garðinum á næstu dögum.

100 fermetra hoppupúði er á leiðinni til landsins og verður hann einnig settur upp í Töfragarðinum fyrir opnun garðsins, en opnunardagurinn er föstudagurinn 20. maí.

Fréttir af dýrum
Tvær Huðnur hafa borið í Töfragarðinum og eru kiðlingarnir þá orðnir þrír.
Meðgöngutími geita er Um 149 dagar eða um fimm mánuðir. og fjöldi afkvæma eru einn til tveir kiðlingar. Geitur komu til Íslands með fyrstu landnámsmönnunum ásamt nautgripum, hrossum og sauðfé. Kið hoppa og skoppa út um allt frá huðnunni, ólíkt lömbunum sem víkja varla frá kindinni.

Karldýr: Hafur.
Kvendýr: Geit, huðna.
Afkvæmi: Kiðlingur.