Fullbúið frá smíðaverkstæði að húsgrunni

Í lok nóvember á síðasta ári fengum við hjá Sumarhúsinu og garðinum að fylgjast með flutningi nýsmíðaðs sumarhúss frá smíðaverkstæði á Stokkseyri á húsgrunn í landi Keldudals í Mýrdalshreppi. Slíkur flutningur er mikið vandaverk og kostar sitt. En húsasmíðameistarinn Valdimar Erlingsson segir að þegar allt er reiknað saman þá borgi það sig í langflestum tilvikum að smíða sumarhús við verkstæðið og flytja þaðan fullsmíðað í sveitina.
„Ef unnið er í nánd við smíðaverkstæði er stutt í vélarnar og öll tækin og tólin,“ segir Valdimar en hann á og rekur smíðaverkstæðið Erlingsson ehf á Stokkseyri. Þar smíðar hann sumarhús sem eru flutt fullbúin um land allt. „Ég myndi segja að í langflestum tilfellum borgi það sig.“

Valdimar Erlingsson

Valdimar Erlingsson

MATAR- OG HÚSNÆÐISKOSTNAÐUR Sem dæmi tekur Valdimar smíði á 100 fermetra húsi fjarri verkstæðinu. Smíði hússins og efniskostnaður væru um 22 milljónir. „Smíðin gæti tekið 2,5-3 mánuði fyrir 3-4 smiði ef allt efnið kæmi á staðinn án þess að einhver bið sé á en það er sjaldnast þannig, þegar maður vinnur úti í sveit, að efnið sem maður biður um úr byggingavöruverslun komi með fyrstu ferð. Svo er efnið oft síðra sem fæst sent en þegar maður mætir á staðinn og velur það sjálfur,“ útskýrir hann. „Þegar við smíðum á verkstæðinu okkar á Stokkseyri sækjum við aðföngin sjálfir á Selfoss en þar hafa þeir í Byko reynst mér vel og ég versla að mestu þar.“ Fyrir svona langt úthald reiknast Valdimari að um 2,2 milljónir í kostnað vegna fæðis og húsnæðis leggist ofan á smíðakostnaðinn. „Gistinóttin er á um 15.000 krónur á mann og fyrir fjóra er sólarhringurinn þá 60.000 krónur. Ofan á gistikostnaðinn bætist við fæðiskostnaður fyrir mannskapinn og aksturinn til og frá heimili sem oft er drjúgur og kostnaðarsamur,” segir Valdimar. „Þannig að flutningur sem kostar rúma hálfa til eina milljón í nágrenni Selfoss margborgar sig.“
MEIRI AFKÖST Á VERKSTÆÐINU Vinnutíminn á smíðaverkstæði Erlingsson ehf er frá 8-18 frá mánudegi til fimmtudags og á föstudögum er hætt klukkan fjögur. „Við tökum klukkutíma í mat og svo eru tvær kaffipásur. Þegar unnið er heima við geta menn skotist heim í hádegismat og njóta svo samveru með fjölskyldunni eftir vinnu,“ segir Valdimar. „Tíminn nýtist betur og afköstin eru meiri því menn eru óþreyttari en í úthaldsvinnu því þá er vinnudagurinn yfirleitt lengri. Á 4.-5. degi í úthaldi er farið að draga verulega af mannskapnum og langt úthald getur gert þá býsna dapra. Þegar menn eru milli tvítugs og þrítugs er rosalega gaman að fara út á land að vinna og það getur skapast góð stemmning í vinnuhópnum. En þegar menn eru komir yfir fimmtugt langar okkur ekki neitt að fara, langar bara að vera heima með fjölskyldunni.“
FLUTNINGUR ER VANDAVERK Flutningur á stóru húsi í lögreglufylgd að næturlagi getur verið ævintýraleg. Það er aðdáunarvert að fylgjast með þegar þaulreyndir flutningamenn takast á við hindranir þegar aðeins er spurning um sentímetra að húsið rekist undir rafmagnslínur, í umferðaskilti eða ljósastaura á einbreiðum brúm. Út af rafmagnslínum og þrenginum þá þarf stundum að taka á sig krók þegar verið er að flytja hús milli staða. Raflínurnar skiptast í sveitalínur og byggðalínur og flutningsmenn og lögregla eru í góðu sambandi við RARIK og heimamenn því oft munar litlu að raflínurnar rofni ef húsið sem verið er að flytja er í hærra lagi. Stundum dugar að lyfta línunni meðan ekið er undir hana en þegar það dugir ekki til þarf að rjúfa línuna. Það var raunin þegar þessum bústað var ekið
undir raflínu samhliða þjóðveginum norðan við Pétursey en hún náði ekki nema 7 metra hæð. Straumurinn var rofinn rétt á meðan ekið var með húsið undir og tengdur á ný. Skammt þar hjá var einbreið brú yfir sprænu á leiðinni að Keldudal sem var of mjó og veikburða fyrir kranabílinn þannig bílstjórinn lagði löturhægt út af veginum til hliðar við brúna og ók yfir ána.

Húsið var við hífingu 22 tonn.

Húsið var við hífingu 22 tonn.

Það er sannarlega margs að gæta þegar ekið er með hús sem er 12 metra langt, 8 m breitt (9 m með þakskegginu) og hæstu hæð 8 m. Maður getur ekki annað en dáðst að snilldarhæfileikum bílstjóranna og annarra sem að slíkum flutningum koma, þeir geta gert alveg ótrúlega hluti. n
Í lok nóvember á síðasta ári fengum við hjá Sumarhúsinu og garðinum að fylgjast með flutningi nýsmíðaðs sumarhúss frá smíðaverkstæði á Stokkseyri á húsgrunn í landi Keldudals í Mýrdalshreppi.